#égerekkitabú

Screenshot 2016-01-19 19.36.41

Hér fyrir neðan er mitt framlag til #égerekkitabú byltingunni sem að átti sér stað á samfélagsmiðlum í oktobér. Þá kom ég alfarið út úr skápnum með mín veikindi. En ég var búin að hanga hálf út úr skápnum í mjög mörg ár. Ég var greind árið 2007 með geðhvörf sem hefur sett mikið strik í það sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Ég gæfi mikið til að fá annan séns í lífinu. Fæðast aftur 100% ,,heilbrigð“, eða án geðhvarfa, kvíða, þunglyndis og ADD þar að segja. Svo oft sé ég og/eða les ég greinar eða viðtöl við fólk með sömu greiningu. Hvað það myndi aldrei vilja skipta sjúkdómnum út fyrir heilbrigða sál. Því „rushið“ við að komast í maníu er svo mikið. Þú verður einfaldlega ósigrandi. Getur allt! Ert jafnvel búin að vera fastur í djúpti þunglyndislægð svo vikum skiptir.

Screenshot 2016-01-19 19.38.01

Svo allt í einu einn daginn, þá geturu allt. Þú hefur ekki undan. Áttar þig á hvað þú átt í raun mikið af vinum, hvað þú getur allt sem þú vilt. Hvað allt er miklu auðveldara. Þú ert svo hamingjusamur, hvernig gastu verið svona óhamingjusamur fyrir aðeins 2 dögum þegar þú gast ekki hugsað þér svo mikið að hringja eitt símtal eða fara í sturtu. Þú ert hamingjusamasta manneskja í heimi og svona gengur þetta í ákveðinn tíma. Misjafnlega eftir fólki. Svo BOOM!! Þú vaknar einn daginn og það er eins og einhver hafi slökkt öll ljós og parkerað heilum fíl ofan á þér.

Screenshot 2016-01-19 19.39.23

Mín útgáfa af þessu —> þú átt að mæta í skólann eftir 30 mín. Þú hafðir nefnilega skráð þig í 120% nám viku áður í Hagfræði. Það var eitthvað svo spennandi að sjá alla þessa útreikninga og þú sást fyrir þér að þú værir algjör sénsi. Hvernig vissi ég ekki að ég væri svona brilljiant í stærðfræði! Ég sem hafði aldrei lært stærðfræði eða neitt því tengt áður! Þar að auki hafði ég sótt um 2 nýjar vinnur og var að plana næstu heimsreisu. Vá hvað lífið var frabært hugsaði ég! Ég get allt sem ég vil.

Screenshot 2016-01-19 19.37.29

Þannig virkar geðhvarfasýki. Í staðinn fyrir að vera raunsær og velja réttar leiðir í lífinu. Þá fer maður svo hátt upp að maður er ósigrandi. Enda hefur maniu verið líkt við að vera á verulega örvandi efnum og þegar kemur að því að koma aðeins niður á jörðina þá er skellurinn svo mikill að maður getur dottið niður í dýpstu þunglyndislægðir. Þannig gengur þetta fyrir sig. Upp og niður, upp og niður. En með aðstoð og  þroska er hægt að ná betri stjórn á þessum sveiflum. Þannig að maður nái meira jafnvæg og vera ekki eins hvatvís!
En ég hef aldrei getað tengt við þess gleði sem fylgir því að vera í maníu þegar ég loksins kemst niður á jörðina. Það er jú yndislegt að vera ósigrandi. En hvatvísi og yfirþyrmandi hugsanir í 100 veldi eru eins og að vera fastur í fangelsi í sínum eigin líkama. Það er oft setninging sem ég hef lýst hvernig mér líður þegar ég tala við mína nánustu. Ég er fangi í eigin líkama. Því á morgun veit ég ekkert hvernig ég mun verða þegar ég vakna og ég hef enga stjórn á því! Ég segi það ekki, að eftir að ég þáði þá hjálp sem í boði er og tek lyf og fylgi ,,handriti“ sem ég hef náð að setja saman um hvernig fólk ,,eigi“ að haga sér og gera hlutina, að líf mitt hafi einfaldast svo margfalt. Það er mjög bærilegt svona á mínum bestu stundum enda er ég búin að hafa örlítið fyrir því og er farin að sjá ljósið 🙂
En samt er alltaf lítil rödd í hausnum mínum sem langar í  annan séns. Að hafa getað klárað nám á réttum tíma eða valið mér ,,rétta“ námið hvers þá heldur, sem ég tel mig hafa fundið í dag. Ég er ef til vill svolitið föst í því sem ég hef ekki gert í lífinu. Í staðinn fyrir hvað ég hef gert! Ég hef ferðast um allan heim og gert óteljandi jákvæða hluti. Sem ,,núlla“ jafnvel út allt það neikvæða. En ég er kannski ekki ennþá búin að gera upp alla mína fortíðar djöfla. Ég ætla að fá að vera barn í hálft ár til viðbótar. Eða þangað til ég verð 30 ára 🙂 Því að þá veit ég að ég er að fara byrja í draumanáminu og orðin besta mögulega útgáfan af mér sjálfri. Þótt 10 árum of ,,seint“ sé 😉

Screenshot 2016-01-19 19.38.39

#égerekkitabú

Hver byltingin á fætur annarri hefur átt sér stað á facebook. Oft hefur mig langað að taka þátt en aldrei náð að ýta á senda takkann. Í allt of mörg ár hefur mér fundist ég þurfa að setja upp grímu. Ég er oftast kát og reyni að vera jákvæð. Síðan ég var unglingur hef ég fengið að heyra sögur af mér út úr bæ hvað ég sé þetta og hitt. Á ég virkilega að þurfa að skammast mín fyrir það eitt að vera með geðsjúdóm. Fyrir ári síðan flutti ég til Slóvakiu, þar sem ég ætlaði að hefja nám í læknisfræði. Mánuðurnir áður einkenndust af maníu og verulegum niðursveiflum. Alltaf stóð mamma mín mér við hlið eins og klettur og fór með mér til Slóvakíu þar sem ég hafði hreinlega ekki andlega heilsu til að fara ein og eftir á að hyggja hefði ég betur verið heima á Íslandi og þegið þá hjálp sem er í boði. Með hverri vikunni fór andlega heilsan niður á við og ég sökk neðar og neðar og undir lokin var ég farin að missa öll veraldlega tengsl. Mér leið svo alein í heiminum þrátt fyrir að vera umkringd yndislegu fólki sem var með mér í náminu. Í lok október var ég svo komin á botninn. Ég fekk taugaáfall og endaði í geðrofi. Ég var búin að missa öll tengs við veruleikann og byrjuð að heyra raddir. Mér fannst of mikið að borða meira en 300 kaloríur á dag og einkenndist því þessi tími af miklu svelti.
Ég fór því með skottið á milli lappana aftur heim til Íslands. Í tómið að mér fannst. Mér fannst ég vera búin að skemma líf mitt. Aldrei á ævinni hafði ég náð svona djúpt. Ég sem var búin að hafa svo mikið fyrir því að komast á þann stað námslega, að ég skammaðist mín fyrir að hafa brugðist sjálfri mér.
En botninum var hins vegar ekki náð fyrr en 31. desember 2014. Þá nótt ákvað ég að ég gæti þetta ekki lengur, ég trúði því virkilega að heimurinn yrði betri án mín. Að mamma mín myndi finna fyrir svo miklum létti að þurfa ekki alltaf hafa áhyggjur af mér. Þannig ákvörðun var tekin. Ég tók öll þau lyf sem ég átti, þvi að mér fannst að minn tími væri kominn. Ég gat ekki hugsað mér einn annan dag í þessu ástandi. Allir dagar runnu saman í eitt. Ég eyddi öllum jólunum ein upp í rúmi, ég gat ekki borðað né mætt í nein jólaboð. Hvernig gat ég boðið mömmu minni upp á eina barnið hennar væri svona mikil birgði.
Þessi saga endar betur en margar, sem betur fer. Mamma mín fann mig á svefnherbergis gólfinu mínu. Búin að taka öll mín lyf og í blóði. Ef það væri ekki fyrir mömmu mína þá væri ég ekki á lífi í dag. Gamlársdeginum eyddum við svo á gjörgæslu LSH. En viti menn, í Janúar fékk ég annan séns í lífinu. Ég byrjaði að tala aftur við geðlækninn minn og stuttu seinna var ég byrjuð í endurhæfingu á vegum VIRK. Ný lyf og samtalsmeðferð gera DÁSEMD. Í dag finnst mér ég hafa náð 85% bata. Ég er svo ánægð með lífið. Ég er loksins í fyrsta sinn að ná að gera allt sem að mig hefur dreymt um og ég veit að allir mínir draumar munu rætast smile broskall
Ég sit með tárin í augunum og skrifa þetta. Afhverju er ég að skrifa þetta? –> vegna þess að það er ekki tabú að vera með Geðhvarfasýki. Ég á ekki að þurfa að ganga með veggjum og skammast mín því ég er ekki með sjáanlega einkenni. Margir munu jafnframt lesa þetta og finnast ég deila of miklu. En vitiði, minn tími til að deila var svo sannarlega kominn! Ég segi bara 1-0 fyrir mér og ég get varla beðið eftir hvað framtíðin ætlar mun launa mér með smile broskall Ég óska þess að rétta manneskjan muni lesa þessa sögu og sjá að það er smá vonarglæta fyrir alla. Eftir að ég hætti að berja mig niður fyrir allar gróu sögurnar og hvað öðrum fyndist um mig, þá finnst mér ég vera heilli manneskju léttari. Sem og ég er. Ég er sterkari en minn geðsjúkdómur og já …ég er ekki tabú kiss broskall TAKK MAMMA ÉG ELSKA ÞIG, þú ert mín stoð og stytta #égerekkitabú

Svo finnið þið mig á snapchat þar sem ég ég gantast meira en að kvarta!

Snappidy:hrefnalif