Dýralæknisfræði? Viltu ekki velja léttari leið í lífinu?

Þá er dagurinn runninn upp sem ég hef beðið eftir í rúmt ár! Ég fékk jákvætt svar við umsókn minni um nám í dýralækningum við University Cardenal Herrera. Ég komst að vísu inn í sama skóla fyrir um ári síðan en var þá ekki búin að safna mér fyrir staðfestingargjaldinu.

Sem er um 500.000kr. Ég get ekki lýst hamingju minni þessa stundina. En mig langar að hlaupa heim henda dótinu mínu í kassa og inn í geymslu. Skella Myrru og Frosta í sitthvort hundabúrið og panta flug. En það verður víst að bíða þar til nær dregur hausti. En skólinn byrjar í september. Skólinn er staðsettur í smábæ sem heitir Moncada og er 14 km norður af miðbæ Valencia. Það tekur um korter að fara með lest í centro Valencia.

Screenshot 2016-02-02 17.44.03Screenshot 2016-02-02 17.43.16

Það er samt ekki aðal tilgangur þess að ég ákvað að skella þessari gleði minni í eitt stk blogg póst. Heldur langar mig að vekja athygli á að standa mér sjálfum sér.
Í nóvember 2014 kom ég heim mjög veik frá Slóvakíu. Ég hafði flutt út ásamt nokkrum öðrum Íslendingum og ákvað að hefja nám í læknisfræði. Þrátt fyrir í raun að hafa allan tímann ætla að hefa nám í dýralækningum. En í hvatvísi minni náði ég inntökuprófi sem haldið var á Grand Hótel í maí 2014 fyrir læknaskólann í Martin, Slóvakíu. Mér fannst sú hugmynd því alveg hreint frábær og fór að ímynda mér að þetta hlytu að vera örlögin að hvísla að mér að ég ætti nú bara skella mér í læknisfræði. Bara sí svona!

Það reyndist hins vegar ekki góð hugmynd. Þar sem mín andlega heilsa var ekki samstíga metnaði mínum og hvatvísi og endaði Slóvakíu dvölin á taugaáfalli.
Næstu mánuði eftir þá dvöl fóru í að tala við ráðgjafa og lækna og leita mér viðeigandi hjálpar og svo kom að því síðasta sumar að ég komst að í endurhæfingu á vegum Virk endurhæfingar. Þar fékk ég úthlutaðan sálfræðing sem að mig langar mest að öllu að taka með mér í handfarangri til Spánar og geyma hana svo á náttborðinu mínu 🙂 Það er kannski ekki að ástæðulausu að ég held svona mikið upp á þessa konu og ég er ekki viss um að hún viti sjálf afhverju. Hún segir alltaf ,,Hrefna, ég er ekkert að hjálpa þér, þú gerir þetta alveg sjálf. Ég sit bara hér og hlusta á þig!“. Það er að vísu svolítið til í því. En á þeim 8 mánuðum frá því að ég kom frá Slóvakíu og þar til að okkar fyrsta viðtal fór fram var hún eini nýi sérfræðingurinn sem að hafði trú á mér og hvatti mig til að gefast ekki upp á markmiðum mínum þótt að ég væri svo til komin á byrjunarreit (að mér fannst).

11025760_10153091033446420_1786642107160196690_n

Ég hitti óteljandi nýja lækna og sérfræðinga í ferlinu áður en ég komst að ég hjá Virk. Eina fagmenneskjan sem að hafði trú á mér var minn eiginn geðlæknir. Hún hefur verið læknirinn minn síðan 2007 og þekkti mig því vel. Setningar eins og …..

-Ertu viss um að þig langi til að leggja svona mikið á þig?
-Heldur þú að þetta endi betur/öðruvísi heldur en síðast þegar þú fórst út?
-Þú ert einfaldlega allt of veik manneskja til að leggja á þig svona erfitt nám!
-Viltu ekki bara velja þér eitthvað þægilegra eða léttara nám? Eitthvað sem að lætur þér ekki líða illa og stressar þig?
-Viltu endilega vera fara í nám, það er mjög stressandi fyrir fólk með geðhvarfasýki?!
-Þú ert búin að lifa svo erfiðu lífi, viltu ekki bara byrja njóta núna og lifa lífinu skemmtilega?

Já gott fólk! Þetta eru hlutir sem að læknar hafa sagt við mig síðastliðið ár. Allt læknar sem gáfu sér engan tíma í að kynnast mér eða vita hvernig manneskja ég væri. Sumt að þessu var sagt við mig eina og annað fyrir framan mig og mömmu mína þegar ég treysti mér ekki ein til læknis.

Mig langar bara núll að gefast upp. Það að ég sætti mig við ,,auðveldu“ leiðina út gerir mig bara ekkert hamingjusama. Ég sé ekki fyrir mig hamingju eftir 10-20-30 ár þegar ég hugsa til þess sem ég hefði geta orðið. Ég sé ekki í dag eftir að hafa farið í nám í Slóvakíu í korter. Ég var að vísu frekar pirruð allar þær helgar og öll þau heimilisþrif sem ég tók að mér á síðasta ári þegar ég var borga LÍN framfærsluna tilbaka. En það er allt nánast gleymt og grafið.
Núna veit ég hvernig er að vera í læknanámi, ég er búin að læra þann orðaforða að miklu leiti sem þarf fyrir fyrstu árin í náminu og er að fara út í neitt í blindni.

Slóvakíu var mér dýrkeypt reynsla, þá bókstaflega! Ég skuldaði milljón í framfærslu, en eftir að ég var búin að borga það tilbaka þá fór ég að sjá kostina í að hafa ,,mistekist“.

,,Maður lærir af mistökunum“ er setning sem að ég hata. Enda geri ég aldrei mistök. Hlutirnir eiga bara vera ,,svona“! En þessi mistök gerðu mig öruggari fyrir næsta skólaár.

Ég get ekki beðið eftir að flytja út í þetta sinn og taka hundana mína með. Ég hlakka til að hafa þeirra félagsskap og vera innan um annað fólk sem hefur sömu áhugamál og ég.
Ég hlakka að vísu ekki jafn mikið til hitans. Því að ég í raun þoli ekki hita. Eða frekar sagt, líkaminn minn þolir illa hita. Ég svitna alveg heil ósköp í hita. Sem hefur einn kost. OG AÐEINS EINN SEM ÉG SÉ. Er að ég get drukkið alveg 4L af vatni á sólríkum degi og þar ALDREI að fara pissa. Því að ég pissa með andlitinu. Sem er ekki topp næs, nei!

Þannig læknar og sérfræðingar hafa ekkert alltaf rétt fyrir sér og það er ekkert allra að fara léttari leiðina (nú vitna ég í lækni upp á geðdeild LSH) í gegnum lífið. Fyrir mér er léttari leiðin að gera hluti sem að gera mig hamingjusama. Ég verð hamingjusöm þegar mér gengur vel og þegar ég er innan um dýr. Hvernig hrópar það ekki HREFNA LÍF FARÐU OG LÆRÐU DÝRALÆKNINGAR!

(ég að kryfja skötu í líffræði í HÍ haust 2015)

Hafðu alltaf trú á sjálfum þér, þótt svo að enginn annar hafi það! Þú ert ekki að lifa þínu lífi fyrir aðra! Þannig berðu ábyrgð á þinni eigin hamingju. Þú ert þess virði, því að þú ert æðibiti ❤

Ég hef margt og mikið meira um þetta segja. Verið góð við næsta aðila, hann er kannski smá leiður og eitt bros getur bætt hans dag :*

kveðja Hrefna Líf Fabjúlöss

**Snappidy