Að vilja ekki barnið sitt…..

Tabú/taboo er eitthvað sem að þykir ekki samfélagslega viðurkennt. 

Ef þú gerir eða upplifir eitthvað sem að er tabú þýðir ekki að það sé rangt eða að þú sért slæm manneskja. Hvað er og er ekki tabú fer t.d. eftir í hvernig menningu við búum eða við hvað við erum alin upp við. Ef við upplifum okkar eða eigin tilfinningar sem tabú þá tölum við síður um það eða skömmumst okkar að hættu við að vera dæmd af öðrum. Viljum við búa í þannig heimi?

Ég tilkynnti allt og öllum það mjög snemma að ég væri ólétt (m.a. á snapchat). Það snemma að fólk hneykslaðist á mér. Bæði ókunnugir og fólk í mínum nánasta hring.

,,Viltu ekki bíða þar til þú ert allavegana komin 12 vikur?” ,,Finnst þér þetta ekki of persónulegt til að deila með mörg þúsund manns?”. ,,Hvað ef þú missir fóstur, þá þarftu að segja öllum frá því líka og það mun bara brjóta þig niður!”. ,,Ætlar þú núna að hætta við námið og að flytja erlendis?”.

Sjálfsagt gert með góðum vilja. Ég á erfitt með að halda leyndarmálum sem að snúa að mér sjálfri. Ég var hvort sem er dugleg að deila öllu öðru sem að gekk á í mínu lífi á snapchat reikningi mínum eða á blogginu mínu. Ég var/er með stóran fylgjendahóp og var vön að deila frá vandræðalegustu hlutum stórum sem smáum.

14706932_10154517004076420_2599489359138142400_o

Ég var komin 7 vikur á leið. Ef ég missi fóstrið afhverju ætti ekki að vera jafn eðlilegt að deila því með fólki eins og að segja frá óléttunni. Það væri alveg jafn stór þáttur í mínu lífi. Stundum gerir lífið okkur gott og stundum er það ósanngjarnt. Mér finnst gamaldags hugsun að þurfa alltaf að segja bara frá því góða.En staðreyndin var sú að langaði alls ekkert  í þetta barn. Mig hefur aldrei langað í barn. Ég hef aldrei velt mér upp úr barnanöfnum eða sóst eftir því að vera í kringum börn.

Ég var alls ekki á þeim tímapunkti í mínu lífi að vera tilbúin í að eignast barn. Ég var að flytja til Spánar í nám 3 mánuðum seinna og ég hafði bara þekkt barnsföðurinn í tæpa 3 mánuði. Ég var ekki tilbúin að eignast barn með manni sem ég þekkti ekkert, hvað þá flytja með honum til útlanda svo ég gæti alið upp barn með honum. Í kjölfarið tók við mánuður af hormónasveiflum og miklum grátköstum. Fólk úr öllum áttum var að reyna sannfæra mig um að leggja námið á hilluna í eitt ár. Að fæða barnið á Íslandi og vera innan um fjölskyldu og vini. En það var bara ekkert það sem að mig langaði að gera. Ég tók það nærri mér hversu fáir virtu mína ákvörðun um að halda mínu striki. Fólk var duglegt að minna mig á að ég væri með geðsjúkdóm og það væri svo erfitt fyrir mig að vera ein að standa í þessu langt frá öllum öðrum. En ég var í vinnu sem að ég hataði og ef ég hefði þurft að vera annað ár  í biðstöðu á Íslandi þá hefði ég endað í miklu þunglyndi.

Eins og ég sagði frá í kynningarbloggi mínu ( hér) þá byrjaði ég að blogga á mínu eigin bloggi um baráttu mína við geðsjúkdóma. Síðustu 10 ár og jafnvel lengur hafa verið ein rússíbanaferð. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að taka á vandanum fyrir alvöru og hóf árs endurhæfingarmeðferð hjá VIRK að ég fór að skila almennilegum árangri. Það góðum árangri að ég var tilbúin að flytja erlendis í nám sem ég taldi mig aldrei getað komist inn í eða að ég næði jafnvægi til að stunda. Ég var búin að sýna og sanna það fyrir sjálfri mér að ég gæti nú loksins byrjað að gera þá hluti sem að mig hafði alltaf dreymt um. Ég var nú þegar búin að ,,missa” 10 ár úr mínu lífi. Fólk með geðhvörf eða aðra geðsjúkdóma skilur eflaust vel um hvað ég á við með þessari lýsingu. Ég veit ekki hversu oft ég hef byrjað á einhverju en það hefur mistekist því ég hef þurft að draga mig í hlé vegna veikinda. En í janúar 2017 þá á ég 2 ára afmæli í BATA. Sem þýðir það að í 2 ár, hef ég samviskusamlega tekið lyfin mín og náð að gera allt sem ég vildi án þess að mistakast. Á þessum 2 árum hef ég í fyrsta sinn á ævinni fundið fyrir því að vilja vera á lífi. Að vilja gera hlutina vel og að geta gert þá. Þess vegna sárnaði mér mikið þegar þeir sem að stóðu mér næst hefðu ekki séð breytinguna á mér. Í staðinn fyrir að peppa mig áfram í því sem ég vildi gera þá var fólk enn svo hrætt við að ég yrði aftur veik. Mér leið eins og óvirkum alka. Sem átti að sleppa því að gera stóra hluti því KANNSKI myndi hann falla og byrja drekka. Eins og maður geti ekki fallið á rassinn og staðið svo bara aftur upp J Mér finnst ég að vísu gera það daglega. Ásamt öllum ykkar sem eruð að lesa þetta. Þér er eflaust alltaf að mistakast eitthvað. En þú setur það til hliðar og reynir aftur! Þannig ég var ekki tilbúin að láta barneignir stoppa mig í því að halda áfram með lífið. Þar sem að mér fannst lífið einfaldlega miklu erfiðara þegar ég var veik. Afhverju ætti ég ekki að geta gert erfiða hluti þegar ég væri búin að ná bata. Ef ég ætti endalaust að hafa áhyggjur af því að mistakast þá kæmist ég ekki úr stað. Afhverju að sækja um skólann, ég kemst hvort sem er ekki inn hugsaði ég alltaf…en fyrir ári síðan. Þá sótti ég um skólann því að vissi að ég kæmist inn og viti menn það GEKK UPP. Ef maður reynir aldrei, þá veit maður aldrei hversu langt maður kemst. Það er miklu miklu verri tilhugsun að prófa aldrei heldur en að prófa og mistakast….trúið mér! Ég hef prófað bæði!

En allar þessar athugasemdir létu mér líða verr. Því það eina sem að ég gat hugsað var um hvað mig langaði ekki neitt í þetta barn. En á sama tíma nagaði samviskubitið mig. Því þetta er stærsti draumur flestra. Að eignast barn. Mér fannst erfitt að réttalæta fyrir mér þrítugri manneskjunni að fara í fóstureyðingu. Bara vegna þess að barnið hentaði mér ekki þá stundina sem að það varð til. Þannig að ég afbókaði tímann sem að ég átti í fóstureyðingu á síðasta mögulega degi.

Á þeim degi var ég komin 11vikur og 6 daga á leið. Ég hugsaði með mér að núna væri ákvörðunin endanleg og barnið væri á leið hvort sem að ég væri tilbúin eða ekki. Ég hefði tæpa 6 mánuði til að breyta mínu hugarfari.

Vinkonur mínar voru einnig búnar að sannfæra mig um að ég myndi líta þetta allt öðrum augum eftir að hafa farið í 12 vikna sónar og sjá með mínum eigin augum hvað væri inn í mallanum mínum og hjartsláttinn.
En nei svo reyndist ekki vonin. Ég man ég labbaði inn í sónarinn kvíðnari en nokkru sinni. Ég hafði þá ekki sofið í 2 sólarhringa. Ekki vegna þess að ég væri stressuð. Heldur vegna þess að ég var með svo mikið samviskubit yfir að vona að barnið væri ekki á lífi. Ég vonaðist til að líkaminn minn hafði á einhvern máta leyft krílinu að fara sjálfur svo að sökin væri ekki mín. Barnsfaðirinn var mér í sónarnum og var svo yfir sig glaður að heyra hjartslátt og að við ættum von á barni saman. Hann hafði ekki hugmynd um hvað mér hafði liðið illa síðustu vikurnar og hversu litla löngun ég hafði til að eignast þetta barn. Enda hafði ég það ekki í mér að segja honum frá því. Ég skammaðist mín það mikið. Ég bað ljósuna um að taka öll aukapróf sem að í boði voru. Ég hugsaði með mér að það væri mín síðsta útgönguleið. Ef að barnið greindist með einhvern litningargalla eða alvarleg veikindi. Þá væri ég ekki að taka sjálfselska ákvörðun um að fara í fóstureyðingu, eða það fannst mér á þeim tíma.

Allar prufur komu hins vegar virkileg vel út og ekkert benti til annars en að heilbrigður drengur væri á leiðinni.

Þetta ferli var því farið að verða all raunverulegra og sambandið hjá mér og barnsföðurnum gekk alltaf betur og betur. Mamma mín stóð eins og klettur mér við hlið allan þennan tíma. Enda var hún eina manneskjan sem að ég þorði að segja allt sem að ég var að upplifa. Hún settist niður með mér og sagði að hún myndi hjálpa mér að öllu leiti að koma mér fyrir á Spáni og vera hjá mér og barnsföðurnum innan handar þegar barnið kæmi í Janúar. Þetta væri ekki svona gífurlega mikið mál eins og allir væru búnir að segja við mig. Konur væru búnar að eiga börn í margar aldir og ég væri ekki sú fyrsta til að eignast barn í námi erlendis. Hún myndi svo hjálpa mér fjárhagslega að öllu leiti sem að ég þyrfti. Þar sem ég hafði ekki beint gert ráð fyrir að fjölga mér á námslánum þegar ég sótti um inngöngu í skólann og ég var nánast óvinnufær allt sumarið vegna flökurleika og þreytu og átti því ekkert sparifé þegar kom að því að flytja út með hundana mína 2.

Mér þótti innilega vænt um allan þann stuðning sem að ég fékk frá fylgjendum mínum á snapchat frá því að ég tilkynnti þetta. Ég var að vísu mjög opin með það frá byrjun hversu stórt sjokk þetta væri fyrir mig og að ég væri innilega ekki tilbúin í þetta. Oft á tíðum var ég full kaldhæðin. Kaldhæðnin skilar sér ekki alltaf í gegnum snapchat. Því fékk ég líka fullt af skilaboðum frá fólki sem skammaði mig fyrir að líða eins og mér leið og sögðu að ég ætti ekki skilið að eignast þetta barn. Það særði mig mikið. Afhverju á ég að þurfa að skammast mín fyrir eigin tilfinningar og upplifanir. Það er ekki eins og ég vakni á morgnana og taki meðvitaða ákvörðun um að vera skíthrædd og ekki tilbúin í þetta hlutverk. Þrátt fyrir að þessar neikvæðu raddir hafi verið í miklum minnihluta. Þá er það fólki eins og þeim að kenna að við eigum orð eins og ,,tabú”.  Því að það er einhver óskipuð dómnefn þarna úti búið að ákveða fyrir okkur hin hvað okkar á að finnast um okkar eigin upplifanir og líf. Sem gerir það að verkum að fólk skammast sín eins og ég gerði. Konur koma með skottið á milli lappanna í leit að ráðum á netinu og biðja fyrirfram um að vera ekki skotnar í kaf fyrir það eitt að vera með spurningu við sínum áhyggjum.

En hvernig mér líður í dag er bókað efni í aðra færslu! Og fyrir ykkur sem lásuð þetta og hafið áhyggjur af því að ófæddur sonur minn muni heyra af þessari færslu í framtíðinni. Að þá mun ég segja honum að ég sé ánægð með þá ákvörðun sem að ég tók. En að ég sé líka mannleg og hafi verið hrædd. Passið ykkur svo á því að dæma ekki alla. Við erum öll að reyna okkar besta :*

14568066_10154453872851420_4292699456200077409_n-1

28 vikna bumban ❤

Þangað til næst/ Hrefna Líf

Snapchat: hrefnalif